Innlent

Ögmundur bloggar um skiptar skoðanir og atkvæðagreiðslur

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
„Í stjórnmálum hefur verið gert alltof mikið úr samræmdu göngulagi. Það hefur lengi verið mín sannfæring að í stjórnarmeirihluta eigi það viðhorf að þykja eðlilegt, að við atkvæðagreiðslu kunni einstakir þingmenn og ráðherrar að hafa skiptar skoðanir," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra í færslu sem hann birti á bloggi sínu í dag.

Í færslunni segir Ögmundur frá því hvernig Alþingi breytti frumvarpi til Sveitarstjórnarlaga á síðustu metrunum. Fyrirhugað var að auka beint lýðræði íbúa sveitarfélaga. Hins vegar var ákvæðum laganna um þau efni breytt svo og möguleikar á beinum atkvæðagreiðslum þrengdir.

Í færslunni segir Ögmundur frá því að hann og Jón Bjarnason hafi greitt atkvæði gegn frumvarpinu. Jón Bjarnason sér ekki heldur fært að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um Stjórnarráð Íslands.

Eins og kunnugt er hafa þeir kumpánar legið undir ámæli úr ýmsum áttum fyrir að geta ekki gengið í réttum takti við ríkisstjórnina. Í færslu sinni leitast Ögmundur við að réttlæta þetta taktleysi.

„Enginn á kröfu á samstöðu samráðherra sinna við eigin baráttumál ef aðrir ráðherrar hafa sannfæringu fyrir öðru. Við atkvæðagreiðslu á Alþingi eru þeir fyrst og fremst þingmenn." segir hann, en í stjórnarskrá landsins segir í 48. gr. að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína.

Bloggfærslu Ögmundar má í heild sinni lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×