Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Óli á það til að skora úr erfiðustu færunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur.
Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur. Mynd/Daníel
Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur, var nokkuð sáttur með 1-1 jafnteflið gegn KR-ingum í Vesturbænum. Grindvíkingar jöfnuðu seint í leiknum með draumamarki Óla Baldurs Bjarnasonar.

„Jú jú. Mér fannst líka leikurinn allt í lagi hjá okkur. Við vorum að spila á móti toppliðinu og von á því að það yrði ákveðin pressa á okkur. Að þetta yrði svolítið erfitt. Mér fannst menn gera þetta ágætlega. Í fyrri hálfleik ver Óskar nokkrum sinnum en við fáum okkar tækifæri á móti.

Í seinni hálfleik duttum við niður í korter eftir að við fengum markið á okkur. Menn missa aðeins trúna en hún kemur aftur í lokin og við skorum gott mark. Eftir það er leikurinn nokkuð opinn og við hefðum alveg getað stolið þessu en að sjálfsögðu tapað þessu líka," sagði Ólafur Örn.

Ólafur Örn sagðist ekki hafa verið að æfa hjólhestaspyrnur með Óla Baldri á æfingum.

„Nei, hann hefur átt það til að skora mörk úr erfiðustu færum en láta verja hjá sér þegar hann fær betri færi. Við tökum stigin og það var margt jákvætt í leiknum."

Grindvíkingar hafa ekki tapað í sjö leikjum sem er félagsmet hjá liðinu í efstu deild. Ólafur Örn er ánægður með stöðugleikann en segir sigrana þó gefa mikið.

„Já en þessi eini sigur gefur mikið. Við verðum að halda áfram að vinna í okkar málum. Það hefur verið stöðugleiki hjá okkur. Kannski ekki skemmtilegustu leikirnir en stöðugri en í fyrri umferðinni. Vonandi getum við byggt á þessu.

Mér leiðist að tala um fall eða fallbaráttu. Við reynum bara að hugsa um okkur og sjá hvar þetta endar að loknum 22 umferðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×