Innlent

Ólafur Ragnar: Málatilbúnaður Jóhönnu rakalaus tilraun til íhlutunar

Í bréfi sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sendi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á síðasta ári, segir að tilhneiging forystumanna ríkisstjórna á undanförnum árum og áratugum að fara út fyrir eðlileg valdmörk sín.

Hann segir ítrekar einnig að forsetinn sé þjóðkjörinn þjóðhöfðingi og forsætisráðherra og embættismenn forsætisráðuneytisins hafi ekki boðvald yfir forsetanum eða geti gefið út tilskipanir um starfshætti.

Uppruna málsins má rekja til þess að í júní í fyrra þegar forsætisráðuneytið sendi forsetaembættinu bréf til þess að óska eftir viðhorfum um siðareglur forsetaembættisins og hlutverk og verkefni forsetans sem var gagnrýnt og bent á rannsóknarskýrslu Alþingis. Forsætisráðuneytið birti bréf sín og eftir fund Jóhönnu og Ólafs Ragnar neitaði forsetaembættið að birta bréf sitt til Jóhönnu.

Ólafur segir í bréfinu að rannsóknarnefndin sem Alþingi setti á fót hafi starfað í umboði þess og sama gildi um þingmannanefndina sem sem fjallar um skýrsluna.

„Alþingi hefur í framhaldi af skýrslunni ekki falið forsætisráðuneytinu erindrekstur gagnvart forseta Íslands enda hefur forsetaembættið nú þegar átt gott og gagnlegt samstarf við þingmannanefndina án atbeina forsætisráðuneytisins. Sú staðreynd sýnir að málatilbúnaður forsætisráðuneytisins í fyrrgreindum bréfum er raklaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis. Auk þess er rétt að minna á að í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar eru forsætisráðherra og forsætisráðherra og forsætisráðuneytinu ekki falin nein verkefni gagnvart forseta Íslands," segir í bréfinu.

Jafnframt segir Ólafur að óskiljanlegt sé hvers vegna forsætisráðuneytið hafi afskipti af málum með þessum hætti og sendi forseta bréflegar tilskipanir sem hvorki eiga stoðir í stjórnskipun lýðveldisins né skýrslu Rannsóknarnefndarinnar eða ákvörðunum Alþingis. „Vera kann að þessi afskipti eigi rætur í þeirri tilhneigingu forystumanna ríkisstjórna sem áberandi hefur verið á undanförnum árum og áratugum og mjög hefur verið til umfjöllunar frá hruni bankanna, að fara út fyrir eðlileg valdmörk sín," segir Ólafur Ragnar í bréfinu.

Hægt er að lesa bréf Ólafs í heild sinni hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×