Skoðun

Ólög eyða

Lúðvík Bergvinsson skrifar
Forsenda jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar í samfélaginu er að allir séu jafnir fyrir lögunum. Kjörorð lögreglu „með lögum skal land byggja en ólögum eyða“ undirstrikar mikilvægi þessa. Í þessu ljósi er athyglisvert hvernig löggjafinn tók á skýlausum brotum lánafyrirtækja á vaxtalögum, en í 17. gr. vaxtalaga eru skýr fyrirmæli um að refsa skuli þeim sem veita ólögmæt gengistryggð lán. Vandséð er hvernig fjármálafyrirtækin geta útskýrt lögbrotið en ljóst er að fyrirtækin geta ekki borið fyrir sig vanþekkingu, því í umsögn samtaka fjármálafyrirtækja til Alþingis við afgreiðslu vaxtalaga á sínum tíma, kom fram það sjónarmið þeirra að yrði frumvarpið að lögum væri fjármálafyrirtækjum óheimilt að veita gengistryggð krónulán. Frumvarpið varð að lögum. Bannið tók gildi. Þrátt fyrir það veittu fjármálafyrirtækin ólögmæt gengistryggð lán. Því verður ekki annað séð en að brotavilji fjármálafyrirtækjanna hafi verið einbeittur í þessu máli.

Viðbrögð löggjafansViðbrögð löggjafans við niðurstöðum dómstóla um ólögmætið verða að teljast afar sérstæð. Í stað þess að brotin væru rannsökuð og fyrir þau refsað, eins og jafnan á að gerast þegar lögbrot eru framin, greip löggjafinn inn í atburðarásina og samþykkti lög nr. 151/2010 sem fólu í sér uppgjörsreglur vegna ólögmætra lána til einstaklinga, sem gerðu lánin jafnvel enn verðmeiri fyrir hina brotlegu lánveitendur en áður. Með lögunum voru lánveitendunum veittar áður óþekktar heimildir til að endurreikna og innheimta afturvirkt ólögmæt lán og jafnvel vaxtareikna og vaxtavaxtareikna á nýjan leik fullgreiddar kröfur. Það er afar vandséð að lögin fái samrýmst eignarréttarvernd stjórnarskrár eða almennum reglum um neytendavernd, eins og margir umsagnaraðila bentu á við meðferð málsins á Alþingi. Enn fjarlægara er að það fáist samrýmst því sem kalla má almenna réttlætiskennd fólks að aðili sem brýtur gegn lögum standi uppi í jafngóðri eða betri stöðu en áður. Í þessu ljósi eru yfirlýsingar um miklar afskriftir fjármálafyrirtækja í þágu einstaklinga og heimila vegna endurútreiknings og niðurfærslu lána afar undarlegar, því ekkert slíkt hefur átt sér stað. Er þar að auki í besta falli villandi að tala yfirleitt um afskriftir þegar gerð eru upp lán sem lánveitendur hafa veitt með ólöglegum hætti gegn betri vitund.

Nauðsyn aðgerða stjórnvaldaÞegar þetta er haft í huga þurfa hörð viðbrögð og reiði almennings að undanförnu ekki að koma á óvart. Hrun fjármálakerfisins, fall krónunnar og mikil verðbólga virkaði líkt og lottóvinningur fyrir eigendur verðtryggðra og gengistryggðra skuldabréfa. Aftur á móti leiddi stökkbreyting lánanna til þess að stór hluti landsmanna hefur horft á eigið fé sitt hverfa og mörg heimili eru komin í algert þrot. Það er auðvelt að færa sannfærandi rök fyrir því að hrun fjármálakerfisins sé raunverulegur forsendubrestur í lánasamningum kröfuhafa og skuldara. Þessi forsendubrestur og sú staða sem uppi er í samskiptum kröfuhafa og skuldara í dag slítur á endanum í sundur friðinn í samfélaginu, ef ekkert verður að gert, því staðan mun aðeins versna úr þessu. Það er því afar mikilvægt að löggjafinn komi til móts við réttmætar kröfur um að umrædd ólög um endurútreikning lána verði afnumin hið fyrsta. Bænagerðir til kröfuhafa um bætta hegðun duga ekki. Löggjafinn afhenti þeim vopnið og verður nú að taka það til baka. Jafnframt verða stjórnvöld, sem neyðarúrræði, að grípa inn í og færa neysluverðsvísitöluna nær því sem hún var þegar fjármálakerfið hrundi, hvort sem niðurstaðan að lokum verður sú að afnema verðtryggingu eða ekki. Sem fyrstu skref væru slíkar aðgerðir líklegar til að skapa einhverja samstöðu og sátt meðal borgaranna og vekja upp raunverulegan vilja til endurreisnar íslensks samfélags eftir áfall hrunsins. Sáttin mun eðlilega kosta eitthvað, en aðgerðaleysi mun kosta meira. Sátt er alger forsenda viðsnúnings úr þeirri stöðu sem íslenskt samfélag er statt í í dag. Alþingismenn hafa vald til að framkvæma þessar breytingar. Þeirra er að framkvæma, því aðrir hafa ekki það vald.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×