Erlent

Önnur sprenging í Kaupmannahöfn

Lögreglan er með mikinn viðbúnað í höfuðborg Danmerkur.
Lögreglan er með mikinn viðbúnað í höfuðborg Danmerkur.

Danskir fjölmiðlar segja að fyrir stundu hafi heyrst sprenging í Örstedsparken í Kaupmannahöfn þar sem lögreglan situr um mann sem talinn er hafa ætlað að gera sjálfsmorðssprengjuárás í borginni.

Ekki er á þessari stundu vitað hvers eðlis hún var.

Lögreglan fann manninn í garðinum skömmu eftir að sprengja sprakk í höndum hans á salerni á Hotel Jörgensen fyrr í dag. Hann hljóp þá alblóðugur út af hótelinu en hneig niður skammt þar frá.

Hann er með breitt belti um sig miðjan og lögreglan óttast að það innihaldi sprengiefni. Það er því verið að reyna að klippa beltið af honum með fjarstýringu áður en gengið er upp að honum.

Óstaðfestar fregnir herma að maðurinn hafi komið frá Luxemborg.

Hótelið er skammt frá Nörreport járnbrautarstöðinni. Mögulegt er talið að maðurinn hafi verið að útbúa sprengju sína á salerni hótelsins og að það hafi verið hvellhettan sem sprakk og slasað hann.

Sprengiefnið sé hinsvegar í fyrrnefndu belti og að hann hafi ætlað að gera sjálfsmorðsárás á lestarkerfið í Danmörku eins og gert var í Madrid á Spáni á sínum tíma.

Öfgasinnaðir múslimar hatast mjög við Dani vegna gamanteikninganna af Múhameð spámanni sem birtar voru í Jyllandsposten.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×