Innlent

Opin hinseginfræðsla Samtakanna '78

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir segir opna hinsegin fræðslu Samtakanna '78 vera til að sporna gegn ranghugmyndum.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir segir opna hinsegin fræðslu Samtakanna '78 vera til að sporna gegn ranghugmyndum. Fréttablaðið/GVA
Samtökin ‘78 standa fyrir opinni fræðslu um hinsegin fólk á sunnudaginn næstkomandi. Fræðslustarf Samtakanna hefur verið mikið í umræðunni síðan bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að efla hinsegin fræðslu í grunnskólum bæjarins í apríl síðastliðnum.

Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson lýsti sig andvígan hinsegin fræðslu í grunnskólum og stofnaði Facebook-síðu sem hann nefndi Barnaskjól. Í kjölfarið vaknaði mikil umræða um hinsegin fræðslu í skólum.

„Fræðslan er haldin út af þessari miklu umræðu sem hefur verið um fræðslu samtakanna og fræðslustörf almennt. Í kjölfarið ákváðu Samtökin ‘78 að blása til opinnar fræðslu vegna mikilla ranghugmynda í umræðunni, til dæmis á internetinu og á Útvarpi Sögu, um hvað svona fræðsla snýst og hvernig hún fer fram,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fræðslufulltrúi Samtakanna ‘78 en mikil umræða myndaðist meðal annars í þættinum „Línan laus“ á Útvarpi Sögu þar sem hlustendur hringdu inn og töluðu gegn hinsegin fræðslu í grunnskólum.

„Fræðslan snýst um að fræða fólk um hvað það er að vera hinsegin og mismunandi hópa innan hinsegin flórunnar. Við tölum um mismunandi kynhneigð, kynvitund og kyn. Svo tölum við líka um fordóma og staðalímyndir, lagalega stöðu hinsegin fólks og loks eru opnar umræður og spurningum svarað,“ segir Ugla um fræðsluna.

Opin fræðsla samtakanna, sem hefur aldrei verið haldin áður, fer fram á alþjóðlegum degi gegn hinsegin fóbíu. Ugla segir samtökin hafa hvatt bæjarfélög til þess að flagga hinsegin fánanum á þessum degi undanfarin ár.

Alþjóðlegur dagur gegn hinseginfóbíu er upprunninn í Bandaríkjunum og var fyrst haldinn árið 2005. Dagurinn er alltaf haldinn hátíðlegur 17. maí.

Opin hinsegin fræðsla Samtakanna fer fram næsta sunnudag í Háteigsskóla klukkan 15.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×