„Það að brugga hefur lengi verið áhugamál mitt og ég hef gengið með þennan draum í maganum,“ segir Marteinn B. Haraldsson í samtali við Vísi en hann hefur komið á fót bruggsmiðjunni Segull 67 á Siglufirði. Hingað til hefur hann látið sér nægja að brugga í skúrnum heima. Upphaflega var sagt frá á Sigló.is.
Brugghúsinu hefur verið valinn staður í gamla frystihúsinu á Siglufirði en Marteinn er uppalinn þar í bæ.
Hann mun til að byrja með vera eini starfmaðurinn en fjölskylda og vinir munu hlaupa undir bagga þegar þörf er á. Með tíð og tíma vonast hann til að geta stækkað við sig þegar framleiðslan er farin á fullt.
„Til að byrja með munum við geta bruggað þúsund lítra í einu og það er stefnt að því að fyrstu flöskurnar mæti í búðir fyrir jólin. Vonandi verðum við komin á kranana hér á heimamörkuðum aðeins fyrr. Við munum líklega herja á árstíðarbundnu bjórana eins og aðrar míkró smiðjur hafa verið að gera.“
Áfengisleyfi Seguls 67 er komið í hús og getur vinna því hafist um leið og allt er tilbúið í húsinu. Að auki verður í húsinu aðstaða til að taka á móti gestum svo hægt verði að bjóða þeim upp á túra um húsið.
„Ég hef ferðast talsvert um heiminn og víðast hvar er frelsi í áfengissölu umtalsvert meira en hér,“ segir Marteinn er regluverkið ber á góma. „Ég sjálfur væri til í að fá þetta í kjörbúðir en fyrirkomulagið virkar alveg með ÁTVR. Hins vegar finnst mér að það mætti aðeins slaka á reglum gagnvart minni brugghúsum. Vera mögulega með einhvern stimpil svipaðan Beint frá býli.“
Aðspurður um nafn smiðjunnar, Segull 67, segir Marteinn að það tengist fjölskyldunni. Segullinn vísi til nálar kompásins og talan 67 hafi lengi verið happatala ættar hans. „Afi og langaafi notuðu bílnúmerið F67 í gamla kerfinu. Ég vildi halda í það með nafninu.“
Viðskipti innlent