Skoðun

Órækt í hugsun

Gauti Kristmannsson skrifar

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og gjaldkeri Heimssýnar, lætur svo lítið að hafa nokkur orð í Morgun­blaðið 4. nóvember sl. um athuganir mínar á þeim áhrifum á íslenska tungu sem innganga í Evrópusambandið hefði.

Hann beitir í greinarkorni sínu þeim kunnuglegu brögðum sem sjá má hjá mönnum sem sjást ekkert fyrir þegar þeir vilja afflytja mál annarra. Þau eru hér einkum hálfsannleikur, óvinahatur og sögufölsun.

Hann segir að nú þegar eyði þjóðin „umtalsverðu fé til þýðinga á regluverki EES" og að ég bendi á að „sú vinna öll og kostnaður margfaldast við inngöngu í ESB". Þetta er sígilt dæmi um hálfsannleik, því þó að það sé rétt að kostnaðurinn aukist þá fellur hann ekki lengur á Íslendinga eina heldur ESB allt. Það sparast því umtalsvert fé við það.

Næsta fullyrðing er afbragðsgóð: „Og jafnt þó enginn lesi þýðingar þessar mun þýðingastarfið hafa áhrif á íslensku þar sem samhliða þýðingum munu skriffinnar margskonar starfa við að orðtaka regluverk þessi, yfirfara og kynna nýyrði og talsmáta sem þar verður til og svo mætti lengi telja." Hvernig skriffinnarnir fara að því að gera þetta án þess að lesa þýðingarnar veit ég ekki, en kannski er það þannig sem Bjarni starfar sjálfur við að afla sér upplýsinga.

Mig grunar það þegar ég les næstu setningar þar sem hann fullyrðir að „danski kansellí­stíllinn hafi komist mjög nærri því að eyðileggja íslenskt ritmál" og að það hafi síðan verið „æviverk Fjölnismanna að snúa ofan af þeim ósköpum". Þessi afgreiðsla á lærdómsöld Íslendinga, ritmáli manna eins Hallgríms Péturssonar, fjölda rímnaskálda, Jóns Vídalíns, Jóns Indíafara, Þorleifs Halldórssonar og Eggerts Ólafssonar, svo aðeins nokkrir séu nefndir, finnst mér bera vott um fágæta fáfræði um 17. og 18. öld og ritmál þess tíma. Margir af þessum mönnum voru ekki aðeins alþýðumenn heldur einnig hálærðir og fluttu inn menningu og menntir frá Evrópu, engu síður en Fjölnis­menn sem sjálfir voru afkastamiklir þýðendur, einkum þó Jónas Hallgrímsson.

Óvinurinn í líki stofnanamálsins sem Bjarni stillir upp andspænis „kjarnmiklu íslensku alþýðumáli" er svo eitthvað sem verður til hvort sem Íslendingar eru í ESB eða EES, því eins og Bjarni veit munu embættismenn þurfa að birta lög, reglur og upplýsingar stjórnvalda eftir sem áður og sýnist mér Bjarni sjálfur verða mikið í því hlutverki að túlka þær fyrir almenning í landinu sem fulltrúi eins ráðuneytis ríkisins. En mér sýnist hann þurfa að vanda sig miklu betur í því hlutverki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×