Viðskipti innlent

Orka til stóriðju lítt arðbær

Mynd úr safni
Lægri arðsemi heildarfjármagns er af virkjunum fyrir stóriðju hérlendis en þekkist í sambærilegri starfsemi erlendis. Þetta kemur fram í skýrslu um arðsemi orkusölu sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson unnu fyrir fjármálaráðuneytið. Arðsemin á Íslandi nam fimm prósentum á árunum 1966 til 2010.

Arðsemi af orkusölu til stóriðju hefur verið verri en annars staðar í atvinnulífinu síðan 1990, en fram að því var hún ívið betri. „Aukin áhætta í rekstri á síðari hluta tímabilsins, s.s. með því að tengja orkuverð við heimsmarkaðsverð á áli, hefur ekki skilað sér í hærri ávöxtun," segir í skýrslunni.

Hefði ekki verið um stóriðju að ræða hefði arðsemi Landsvirkjunar hins vegar verið mun lakari en raunin varð, en arðsemi heildarfjármagns af orkusölu til almenningsveitna hefur verið um tvö prósent á tímabilinu.

Skattgreiðendur á Íslandi hafa ekki fengið endurgjald fyrir þá ábyrgð sem þeir hafa tekið á sig í tengslum við orkusölu, en skýrsluhöfundar segja hana mjög háa miðað við höfðatölu. Arðsemi af orkusölu til stóriðju hefur verið svipuð fjármagnskostnaði ríkisins.

Ekki verður því séð að starfsemi Landsvirkjunar hafi skilað beinni auðlindarentu, en með því er átt við greiðslur fyrir afnot af auðlind eftir að rekstraraðilar hafa haft eðlilegan arð af rekstrinum.

Höfundar leggja til að orkufyrirtækjum verði breytt í almenningshlutafélög og notast við verkefnafjármögnun við nýjar framkvæmdir. Þannig verði skatttekjur ríkisins ekki lagðar að veði við byggingu orkumannvirkja.

- kóp





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×