Innlent

Orkuveitan framkallar jarðskjálfta í Henglinum

Tvær manngerðar jarðskjálftahrinur urðu á Hengilssvæðinu í nótt og í morgun, sem rekja má til umsvifa Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu. Fyrri hrinan varð frá klukkan tvö til hálf fjögur í nótt og sú síðari og snarpari frá klukkan hálf sex til sex í morgun.

Margir skjálftar mældust í báðum hrinunum, en allir þó vægir og fundust þeir hvergi í byggð, en Hengilssvæðið er norðan við Hellisheiði. Að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur jarðfræðings á Veðurstofunni kom í ljós í morgun að þetta stafaði af því að starfsmenn Orkuveitunnar voru að dæla niður köldu vatni á Hengilssvæðinu, þar sem mikill jarðhiti er undir, en við það framkölluðust jarðskjálftar.

Dælingin tengist rekstri Hellisheiðarvirkjunar. Þetta teljast því manngerðir skjálftar, en eftir því sem jarðvísindamenn Veðurstofunnar best vita, hefur slíkt verið óþekkt hér á landi nema í tengslum við sprengingar af manna völdum, einkum við mannvirkjagerð, eins og gerðist til dæmis við gerð Kárahnjúkavirkjunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×