Viðskipti innlent

Óskýr skilaboð frá stjórn Íbúðalánasjóðs

MÞL skrifar
Jóhann Ársælsson
Jóhann Ársælsson
Engin ákvörðun hefur verið tekin hjá Íbúðalánasjóði um að hætta útgáfu skuldabréfa í núverandi flokkum húsnæðisbréfa (HHF). Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn sjóðsins.

Bar stjórnin þannig til baka þá fullyrðingu Jóhanns Ársælssonar stjórnarformanns í viðtali við vefsíðu Morgunblaðsins á miðvikudagskvöld að stjórn Íbúðalánasjóðs hefði ákveðið að útgáfu óuppgreiðanlegra húsnæðisbréfa væri lokið. Ræddi vefsíðan við Jóhann í kjölfar stjórnarfundar fyrr um daginn.

Viðtalið við Jóhann birtist á vefsíðunni rétt eftir klukkan 20 en þegar klukkan var 44 mínútur gengin í þrjú nóttina eftir barst fyrrnefnd tilkynning frá stjórninni.

Þar segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að nýta núverandi skuldabréfaflokka ekki áfram. Þá er ástæða þess að Íbúðalánasjóður hefur ekki gefið út ný skuldabréf frá því í janúar sögð vera sterk lausafjárstaða sjóðsins.

Nokkuð hefur verið fjallað um erfiða fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs að undanförnu en ríkisstjórnin samþykkti á þriðjudag að leggja sjóðnum til 13 milljarða til að treysta eiginfjárstöðu hans.

Ein helsta orsök vandræða sjóðsins er sú að lántakendur hjá sjóðnum hafa síðustu misseri greitt upp fjölda lána en sjóðurinn getur ekki á móti greitt upp skuldabréf sín. Þannig bera eignir hans, lánin, ekki nægilega vexti til að standa undir skuldum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×