Innlent

Össur bað íranskri konu griða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson bað konunni griða á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mynd/ afp.
Össur Skarphéðinsson bað konunni griða á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mynd/ afp.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skoraði í gærkvöldi í ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á Ahmedinejad forseta Írans að þyrma lífi Sakineh Ashtiani, konunnar sem írönsk stjórnvöld dæmdu til að verða grýtt til dauða.

Össur lýsti í ræðu sinni yfir að barátta fyrir réttindum kvenna á alþjóðavettvangi væri forgangsmál í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar. Ísland hefði barist fyrir stofnun sérstakrar kvennastofnunar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og fyrir því að konur fengju aukin áhrif í friðarviðræðum á átakasvæðum.

Í ljósi þessara áherslna Íslendinga tækju þeir því með sorg í hjarta að írönsk stjórnvöld hefðu dæmt Ashtiani til að verða grýtt til dauða.

„Ahmedinejad forseti, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar bið ég þig um að þyrma Ashtiani," sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá ráðuneyti hans.



Mótmælti því að íslenskir sjálfboðaliðar væru hindraðir við störf


Össur mótmælti líka harðlega því framferði Ísraelsmanna að hindra að íslenskir sjálfboðaliðar kæmust til Gaza til að setja gervifætur frá fyrirtækinu Össuri á limlesta Palestínumenn í Gaza, sem misst hafa fætur vegna átaka við Ísrael.

„Þetta er ómannúðlegt, og óréttlæti," sagði ráðherrann, og skoraði á Ísraelsmenn að láta af hindrunum sínum gegn því að neyðaraðstoð, Íslendinga og annarra, bærist nauðstöddum íbúum Gaza.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×