Innlent

Össur baðst afsökunar

Utanríkisráðherra baðst í dag afsökunar í ræðustól Alþingis á framgöngu íslenskra stjórnvalda gagnvart Falun Gong liðum sem ætluðu að koma hingað til lands árið 2002 í tengslum við heimsókn þáverandi Kínaforseta.

Það var þingmaðurinn Margrét Tryggvadóttir sem hóf umræðuna í óundbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Sagði hún að skömmu eftir komu þáverandi kínaforseta til landsins í júní 2002 hafi ríkisstjórn íslands bannað öllum Falun Gong liðum að koma til landsins. Sendiráðum víða um heim hafi verið skylt að framfylgja banninu og Icelandair hafi fengið lista yfir hugsanlega meðlimi samtakanna. Ljóst sé að brotið hafi verið á mannréttindum og tjáningarfrelsi því ákvað hún að spyrja utanríkisráðherra hvort ekki væri tímabært að íslensk stjórnvöld bæðust afsökunar á framferði sínu gegn þessu fólki árið 2002.

Össur brást vel við þessari áskorun og sagði allavega ljóst að þetta myndi ekki endurtaka sig á meðan núverandi ríkisstjórn væri við völd. Þarna hefðu menn augljóslega farið út fyrir valdsvið sitt. „Ég get bara sagt það til að ljúka því í eitt skipti fyrir öll að ég er reiðbúinn fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar að biðja þá afsökunar sem fyrir urðu á sínum tíma," sagði Össur.

Margrét hvatti þá ríkisstjórnin í heild sinni til þess að biðjast afsökunar með formlegum hætti. „Ég tel að það sé ekki til einlægri eða formlegri háttur að biðja einhvern sem brotið hefur verið á afsökunar af ríkisstjórn nema úr ræðustóli þess þings sem ríkisstjórnin þarf að svara til," sagði Össur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×