Innlent

Össur ósammála Krugman - hefur fulla trú á evrunni

Erla Hlynsdóttir skrifar
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, er ósammála nóbelsverðlaunahafa í hagfræði um hvort evran sé besti kosturinn fyrir Íslendinga.

Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, er meðal þeirra sem hélt erindi á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda í gær. Hann varaði mjög við upptöku evrunnar og sagði Ísland standa mun betur að vígi en þau lönd sem hefðu tekið upp evruna.

„Ég hef ekki skipt um skoðun. Það er grundvallar ágreiningur á milli mín og til dæmis nóbelsverðlaunahafans Krugmans að því leitinu til að hann vill nota krónuna til þess, í kreppum, að lækka kaupmátt fólksins og velta þannig byrðunum yfir á það. Það vil ég ekki. Þannig að ég er jafn harður á þeirri skoðun að það væri mjög gott fyrir okkur að taka upp evruna," segir Össur.

Þannig segir Össur að Íslendingar geti útrýmt verðtryggingu, fengið evruvexti og aukið erlenda fjárfestingu.

„Sömuleiðis þá er ég nú bjartsýnni á evruna en áður því þessar aðgerðir sem gripið var til á evrusvæðinu í gær, markaðirnir taka þeim að minnsta kosti mjög vel þó ég telji sjálfur að það sé ekki nóg að gert. En það er klárt að við erum að sjá endurskapaða evru sem hefur skírst í eldi harðra átaka og umróts, og það getur bara verið gott fyrir Ísland," segir Össur og bætir við:

„Bæði þegar kemur að því að við tökum afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu en líka því það dregur úr líkunum á því að það verði kreppa í Evrópu sem óhjákvæmilega myndi hafa áhrif á útflutning okkar til Evrópu, en það er jú stærsta markaðssvæði okkar."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×