Innlent

Óttast að hagsmunum sé fórnað

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Forsætisráðherra segir að Íslendingar láti Bandaríkjamenn ekki segja sér hvort þeir megi veiða hval eða ekki. 	Nordicphotos/AfP
Forsætisráðherra segir að Íslendingar láti Bandaríkjamenn ekki segja sér hvort þeir megi veiða hval eða ekki. Nordicphotos/AfP
Hvalveiðar snúast ekki um veiðigjöld, þær snúast um sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.

Björt Ólafsdóttir, Bjartri framtíð, spurði forsætisráðherra hver ábatinn af hvalveiðum íslendinga hefði verið.

Björt sagðist hafa áhyggjur af því að það væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með hvalveiðunum.

Í máli sínu benti hún meðal annars á að Obama Bandaríkjaforseti hefði fyrirskipað að öll tvíhliða samskipti við Íslendinga yrðu endurskoðuð og þrýst á að Íslendingar hættu veiðum á langreyði.

Sigmundur Davíð sagði að hvalveiðar snerust meðal annars um að verja rétt Íslands til að nýta náttúruauðlindir sínar. Það sé gríðarlega mikils virði. Forsætisráðherra sagði að við ættum ekki að láta eina mestu hvalveiðiþjóð heims segja okkur að við megum ekki veiða hval.

Björt sagði að stjórnvöld horfi ekki á málið út frá viðskipalegum forsendum heldur tilfinningalegum.

Því neitaði forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×