Innlent

Óvissa með sumarbúðir fyrir börn með athyglisbrest

Lillý Valgerður Péursdóttir. skrifar
Vatnaskógur
Vatnaskógur
Óvíst er hvort að hægt verið að bjóða áfram upp á sérstakar sumarbúðir í Vatnaskógi fyrir drengi með athyglisbrest eftir að ríkið ákvað að fella niður fjárframlög til sumarbúðanna. Þetta segir framkvæmdastjóri Vatnaskógar.

Í fjárlögum næsta árs, sem kynnt voru í vikunni, er gert ráð fyrir að fjárveiting til æskulýðsmála lækki. Þannig verða til að mynda framlög til Æskulýðsmiðstöðvar KFUM í Vatnaskógi og Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni felld niður. Framkvæmdastjóri Vatnaskógar segist fyrst hafa frétt að fella ætti 3,4 milljóna fjárframlag til þeirra þegar fjárlögin voru birt og hafi það komið sér verulega á óvart.

„Þetta gerir það að verkum að við erum að strögla í rekstrinum og þetta er mjög tæpur rekstur þannig að þetta er mjög slæmt fyrir okkur þó þetta sé ekki stór upphæð fyrir hið opinbera þá er þetta mjög slæmt fyrir reksturinn hjá okkur," segir Ársæll Aðalbergsson, framkvæmdastjóri Vatnaskógar.

Ársæll segir að framlög til Vatnaskógar hafi lækkað eftir hrun. Reksturinn hafi verið í járnum síðustu ár og því muni um hverja krónu. Mikilvægt sé að ríkið styðji vel við æskulýðsstarf. „Það er ekki verið að forgangsraða rétt, auðvitað er hægt að segja það í svo mörgum málum, en þetta eru ekki stórar tölur en geta hins vegar hjálpað alveg ofboðslega mikið."

Hann segir ljóst að lægri fjárframlög koma til með að hafa mikil áhrif á starfsemina.

„Það þýðir það að við munum væntanlega þurfa að hækka gjöld ef til vill draga eitthvað úr rekstrinum. Svokallaður flokkur fyrir drengi með athyglisbrest og skyldar raskanir það verkefni er í uppnámi líka. Þannig að þetta eru ekki góðar fréttir," segir Ársæll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×