Viðskipti innlent

Óvíst hvort NBI hafi nægan gjaldeyri til að greiða skuldabréf

Óvíst er hvort gjaldeyrisflæði Nýja Landsbankans (NBI) geti staðið undir greiðslum af 280 milljarða kr. skuldabréfi sem bankinn gaf út til gamla Landsbankans í tengslum við uppgjörið þeirra á milli.

Morgunblaðið segir frá þessu frá í dag. Samkvæmt heimildum blaðsins fóru fulltrúar NBI á fund skilanefndar Landsbankans í þessari viku til að vara við því að hætta væri á að greiðsluflæði gjaldeyris inn í NBI stæði ekki algerlega undir afborgunum af skuldabréfinu. Skuldabréfið á að greiðast í erlendum gjaldeyri. Það er til 10 ára en aðeins vextir eru greiddir af því fyrstu fimm árin.

NBI vill breyta ákvæðum skuldabréfsins á þann hátt hluta þess megi greiða í íslenskum krónum. Um er að ræða upphæð sem hleypur á einhverjum tugum milljarða kr.

Til að mæta þessu vandamáli gæti ríkissjóður aðstoðað bankann með frekari fjárframlögum. NBI gæti einnig keypt gjaldeyri af Seðlabankanum og hægt væri að fallast á óskir NBI um að greiða hluta bréfsins með krónum.

Morgunblaðið bendir á að skuldabréfið er 25% af eignum gamla Landsbankans. Það mun því hafa umtalsverð áhrif á efnahagsreikning þrotabúsins ef greiðslur frá NBI tefjast eða verða í krónum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×