Innlent

Óvíst um þjóðaratkvæðagreiðslu

Í pontu Bjarni Benediktsson segir óvíst hvort kosið verði um áframhaldandi viðræður við ESB.Fréttablaðið/Pjetur
Í pontu Bjarni Benediktsson segir óvíst hvort kosið verði um áframhaldandi viðræður við ESB.Fréttablaðið/Pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki liggja fyrir hvort haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið (ESB).

„Það liggur ekki fyrir nein ákvörðun um það hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla verði eða hvort hún verði haldin,“ sagði Bjarni við fréttastofu 365 í gær.

Bjarni sagði í viðtali við Fréttablaðið þann 24. apríl síðastliðinn, skömmu fyrir kosningar, að það væri hluti af stefnu flokksins að kjósa um málið. „En við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það,“ sagði hann þá.

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, var í sama viðtali spurður hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram taldi hann það jafnvel geta orðið snemma á þessu kjörtímabili.

Eins segir fjármálaráðherra ekki ástæðu til að slíta viðræðum við ESB með formlegri samþykkt Alþingis. Rétt sé að bíða eftir skýrslu um stöðuna innan sambandsins.

Talsmaður stækkunarstjóra ESB segir að einróma ákvörðun allra aðildarríkja ESB frá árinu 2010 um að hefja formlegar viðræður við Ísland sé enn í fullu gildi.

Viðræðurnar byggja á samþykkt Alþingis frá 2009 og þarf því þingvilja til að fella þá ákvörðun úr gildi.

Bjarni segist undrast uppslátt fjölmiðla um málið síðustu daga þar sem ESB sé ekki og hafi aldrei verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar.- vg, þþ, þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×