Innlent

Öxnadalsheiði lokuð vegna óveðurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Öxnadalsheiði er fjallvegurinn mill Varmahlíðar og Akureyrar.
Öxnadalsheiði er fjallvegurinn mill Varmahlíðar og Akureyrar. loftmyndir.is
Veginum um Öxnadalsheiði hefur verið lokað vegna óveðurs en skafrenningur og mjög blint er á heiðinni. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni verður hvasst á heiðinni nánast í allan dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er óvíst hvenær heiðin verður opnuð aftur. Það var reynt áðan en tókst ekki. Þá hefur eitthvað verið um það að ökumenn virði ekki lokunina og hafa þeir því lent í vandræðum en það tefur líka fyrir.

Vegagerðin mælir með hjáleiðinni um Siglufjarðarveg sem er greiðfær. Þar er þó nokkuð hvasst og þurfa ökumenn að fara varlega.

Innanlandsflug liggur svo niðri vegna veðurs og verður staðan metin aftur klukkan 13:30 að því er fram kemur á vef Flugfélags Íslands.

Það er hvasst víða um land nú, vindurinn verður svo örlítið hægari um tíma en vex svo aftur seinnipartinn, að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Færð og aðstæður á vegum eru annars sem hér segir, samkvæmt vef Vegagerðarinnar:

Hálka er á Hellisheiði. Hálkublettir og snjóþekja eru víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi eru hálkublettir víða en hálka á Holtavörðuheiði en snjóþekja á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum, hálka eða snjóþekja er á öðrum leiðum.

Hálka eða hálkublettir eru mjög víða á Norðurlandi vestra. Norðaustanlands er hálka á flestum fjallvegum en greiðfært að mestu á láglendi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Greiðfært er að mestu með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×