Enski boltinn

Paul McGrath: Liverpool leikmennirnir ættu að skammast sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá bolina umdeildu.
Hér má sjá bolina umdeildu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paul McGrath, fyrrum varnarmaður Manchester United, er allt annað en hrifinn af þeirri ákvörðun leikmanna (og stjóra) Liverpool að hita upp í bolum merktum Luis Suárez til þess að sýna stuðning sinn við Úrúgvæmanninn í verki.

„Kenny [Dalglish] var kannski að reyna að koma skilaboðum til enska knattspyrnusambandsins en það var algjör smekkleysa að senda alla út í svona bolum. Það hefði verið miklu betra ef að þetta hefðu verið bolir merktir baráttunni gegn kynþáttahatri," sagði Paul McGrath.

Luis Suárez var dæmdur í átta leikja bann fyrir að kynþáttafordóma gegn Manchester United manninum Patrice Evra í leik Liverpool og United á dögunum.

„Þetta snýst um virðingu og um virðingu fyrir mótherjanum. Leikurinn er orðinn of stór og hann snýst bara um að vinna og græða pening. Nú eru menn bara að hugsa um að passa upp á sína bestu leikmenn," sagði McGrath og bætti við:

„Það voru mörg börn sem horfðu upp á Liverpool-leikmennina hita upp í þessum bolum merktum brosandi manni sem hafði gerst sekur um kynþáttaníð gegn einum mótherja sínum. Þetta er til skammar fyrir fótboltann. Þetta setur líka baráttuna gegn kynþáttafordómum aftur til fornaldar að mínu mati," sagði McGrath.

McGrath talaði líka um að hann hefði aldrei geta klæðst svona bol á sínum tíma ef að hann hefði grunað leikmann um kynþáttahatur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×