Lífið

Plata sem mun græta steratröll

Baldvin Þormóðsson skrifar
Prins Póló heldur tónleika í sumar.
Prins Póló heldur tónleika í sumar. vísir/valli
„Þessi plata er búin að vera í smíðum í tvö ár,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, forsprakki hljómsveitarinnar Prins Póló, en hann setti sér áramótaheit í byrjun árs 2012 að gefa út heila plötu á einu ári.

„Ég leigði vinnustofu í Dugguvogi, mætti klukkan níu á morgnana og sat kófsveittur við skrifborðið að semja tónlist,“ segir Svavar, sem ætlaði fyrst að gefa út eitt lag á mánuði í eitt ár.

„Það var í raun áramótaheitið, en síðan missti ég aðeins athyglina. Svo fóru lögin að koma til mín aftur eitt af öðru og núna er ég búinn að hræra saman þessa plötu,“ segir Svavar og bætir því við að platan sé að mörgu leyti mjög persónuleg.

„Þessi plata er í raun ekkert annað en blæðandi tilfinningasár og mun örugglega græta hvaða steratröll sem er við fyrstu hlustun.“ segir Svavar. Platan ber nafnið Sorrí en Svavar segir djúpskilvitlega ástæðu liggja að baki nafninu.

„Titillinn kom fyrst til mín sem vinnutitill á frumstigum plötunnar en það er einhver svona fyrirgefning þarna niðri, sem er ekki hægt að skilja nema að hlusta á alla plötuna í gegn, þá verður það eiginlega þemað,“ segir Svavar en platan kemur út 15. maí.

„Þegar maður er búinn að safna tilfinningunum sínum inn í einhvern tólf laga ramma fer maður í svona ástand sem er bæði þægilegt og viðbjóðslegt. Ég ætla bara að sleppa henni lausri og taka á því í sveitinni,“ segir Svavar, en hann flutti nýverið á frúargarð í Berufirði í Djúpavogshreppi fyrir austan.

,,Ætlunin er að byggja upp konungdæmi Prinsins, en síðan verða einhverjir tónleikar í sumar þegar sauðburður er búinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.