Enski boltinn

Poulsen: Gæti tekið fjóra mánuði að ná okkar besta fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Christian Poulsen, leikmaður Liverpool, telur líklegt að það gæti tekið leikmenn Liverpool fjóra mánuði til viðbótar að ná sínu besta fram á vellinum.

Liverpool byrjaði skelfilega á leiktíðinni í haust en hefur átt ágætu gengi að fagna að undanförnu. Liðið vann 3-0 sigur á West Ham um helgina og það var fjórði sigur liðsins í síðustu sex leikjum.

„Ég held og vona að við höldum áfram að bæta okkur með hverjum leiknum," sagði Poulsen í samtali við enska fjölmiðla.

„Ef við hlustum á það sem stjórinn hefur að segja þá er ég viss um að við verðum mikla betra lið í febrúar og mars."

Poulsen var mikið gagnrýndur í haust er hann lék sína fyrstu leiki fyrir Liverpool. Hann spilaði á miðju Liverpool um helgina í fjarveru þeirra Steven Gerrard og Lucas Leiva og þótti standa sig vel.

„Það var gott fyrir mig að spila aftur. Þetta var erfið byrjun og því gott að vera aftur í byrjunarliðinu og vinna leikinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×