Innlent

Prjóna peysu á traktorinn

Kvenfélagskonur í Eyjafirði prjóna nú flík í öllum regnbogans litum utan um traktor sem ætlunin er að sýna á handverkshátíð á Hrafnagili í ágústmánuði í sumar. Eyfirðingum hefur með handverkshátíðinni tekist að skapa héraðinu þá ímynd að vera höfuðból heimilisiðnaðar á Íslandi.

Það sem kvenfélagskonurnar eru að bardúsa þessa dagana á landnámsjörðinni Kristnesi toppar þó sennilega allt annað. Þær mæta þangað úr þremur kvenfélögum Eyjafjarðarsveitar til að klæða gamla dráttarvél af Deutz-gerð í skrautlega ullarflík.

Ester Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Handverkshátíðarinnar, segir í viðtali á Stöð 2 að þarna í sveitinni sé hugmyndaríkt fólk sem langaði að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi til að vekja athygli á handverkshátíðinni, en frestur sýnenda til að sækja um aðstöðu er til 1. apríl.

Konurnar byrjuðu á því að taka snið af traktornum en flíkin er bæði prjónuð og hekluð. Það var ekki tilviljun að traktor var valinn í þessu öfluga landbúnaðarhéraði, hann minnir á tengsl handverks og landbúnaðar, segir Ester.

Kvenfélögin skipta á milli sín verkhlutum. Hjálpin í Saurbæjarhreppi sér um framhlutann, Iðunn í Hrafnagilshreppi klæðir felgurnar og öryggisgrindina og Aldan Voröld í Öngulstaðahreppi sér um afturhlutann. Verkið skotgengur, en aðeins eru liðnir fjórir dagar frá því þær hófust handa.

Þeim þótti rétt að skála fyrir verkinu, sérrí var því hellt í staup, eins og sjá mátti í frétt Stöðvar 2, og gleðin hélt áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×