Innlent

Ráðherra boðar Kristínu á fund

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur boðað Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, á fund vegna ummæla sem hún lét falla í fréttum RÚV á fimmtudag.

Ögmundur segist hafa farið yfir ummæli Kristínar og óskað eftir fundinum í kjölfarið. „Mér þykja þessi ummæli undarleg, ég er mjög ósáttur við þau og vil að þau verði útskýrð,“ segir hann. Spurður hvort Kristínu sé stætt á því að sitja í embætti forstjóra eftir þetta svarar hann:

„Ég vil láta þetta nægja í mínum viðbrögðum að ég ætli að sækjast eftir rökstuðningi og heyra hvað forstjórinn hefur til málanna að leggja.“

Kristín segir ummæli sín hafa verið tekin úr samhengi.

„Það vantar framan við setninguna, sem var útskýring á því að ég var að tala um lítinn hluta fólks frá Evrópuríkjum,“ segir hún. „Við erum nú með 101 umsókn til meðferðar fyrir 2011 og 2012, þar af eru á milli tíu og tuttugu sem gætu fallið undir þessa skilgreiningu.“

Kristín segir þá einstaklinga vera á aldursbilinu 20 til 40 ára og séu að sækja um hæli á grundvelli efnahagsástæðna þar sem þeir fái ekki vinnu í heimalandi sínu.

„Þetta fólk kemur hingað sem ferðamenn og sækir svo um hæli,“ segir hún. „Svo eru umsóknir þar sem fólk sækir um eftir komu til landsins og er orðið fjárþurfi og horfir fram á að það þurfi að senda það úr landi. En vandamálið er að málsmeðferðin er sú sama hjá þeim og öðrum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×