Innlent

Ráðherra vill að þáttur háskólanna í hruninu sé skoðaður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að veita eina milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja rannsóknir á íslensku háskólakerfi og þætti þess í hruninu. Styrkurinn rennur til rannsóknarstofu um háskóla sem Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor veitir henni forystu.

Með styrknum vill ráðherra efla rannsóknarstofuna til að taka forystu í þessu mikilvæga verkefni. Þá er styrkurinn einnig hugsaður til að vekja fræðimenn og stjórnendur háskóla til umhugsunar um siðferðilega ábyrgð sína og skyldur við samfélagið.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir að þrátt fyrir takmarkaða fjármuni sé að mati ráðherra aldrei eins mikilvægt og nú að rannsaka stjórnkerfi, lagaumhverfi, starfshætti, menningu og siðferði í háskólakerfinu svo betur sé tryggt að markmiðum með háskólastarfi sé fullnægt. Það sé liður í því að byggja upp gagnrýnna, upplýstara og öflugra samfélag á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×