Innlent

Ráðherra vill innra eftirlit og rýmri heimildir lögreglu

Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir.

Lögreglumál Lögreglan mun fá heimildir til að rannsaka einstaklinga án þess að grunur leiki á að þeir hafi framið eða ætli að fremja ákveðið brot nái fyrirætlanir Rögnu Árnadóttur, dóms- og mannréttindamálaráðherra, fram að ganga.

Ragna ætlar að fela réttarfarsnefnd að undir­búa tillögur um slíkar forvirkar rannsóknaraðferðir fyrir lögreglu, en hún viðurkennir að slíkar heimildir séu umdeildar.

„Sjálf hef ég til þessa verið mikil efasemda­manneskja og talið að það ætti fremur að halda að sér höndum í þessum efnum heldur en hitt," segir Ragna í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í dag. „En eftir að hafa fengið ákveðnar greiningar, upplýsingar og gögn, meðal annars um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, tel ég mér ekki stætt á öðru en að bregðast við," segir Ragna.

Hún segir að slíkum forvirkum rannsóknarheimildum verði að fylgja skýrt eftirlit. Hún sér fyrir sér að það verði í höndum þingnefndar eða sérstakrar deildar innan dómstóls, eða mögulega hvort tveggja.

Ragna segist jafnframt vera að skoða hvort ekki þurfi að koma á formlegu innra eftirliti hjá lögreglu. Í dag metur ríkissaksóknari hvort lögregla hafi misbeitt valdi sínu, og sérstakt eftirlit er innan lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

„Ég tel að það verði að ganga mun lengra í þessum efnum, þannnig að við höfum óháða einingu sem getur metið ýmis mál af þessum toga hjá lögreglu á landsvísu," segir Ragna.

„Það myndi vera liður í því eftirliti sem komið yrði á fót samhliða eftirliti á forvirkum rannsóknarheimildum, trúverðugt og virkt kerfi sem fylgdist með því að þessar heimildir yrðu ekki misnotaðar."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×