Innlent

Ráðleggur fólki að fá lánuð eldhús

Helga Arnardóttir. skrifar
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra ráðleggur fólki sem hyggur á matvælaframleiðslu fyrir kökubasara og önnur góð málefni að fá lánuð eldhús í grunnskólum eða félagsheimilum sem eru vottuð af eftirlitinu. Þannig sé hægt að mæta reglum um matvælaöryggi og baka í þágu góðs málstaðar. 

Greint hefur verið frá því í vikunni að hópur norðlenskra kvenna sem bakað hefur bollakökur til styrktar fæðingardeildinni á Akureyri hefur hætt við basarinn þar sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerði athugasemdir við baksturinn í heimahúsum. Í fyrra fékk basarinn góðar viðtökur. Kökur seldust fyrir fjögur hundruð þúsund krónur sem runnu óskiptar til fæðingardeildarinnar.

„Það er ekki rétt að við höfum bannað kökubasara við hins vegar förum fram á að matvælaframleiðsla fari fram í vottuðum eldhúsum samkvæmt matvælalöggjöfinni," segir Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. 

Aðstandendur basarsins hafa lýst yfir óánægju með þetta og segja miður að ekki sé hægt að afla fjár með þessum hætti. 

„Heilbrigðisfulltrúar um land allt hafa á undanförnum árum reynt að beina þessari starfsemi úr heimaeldhúsum í viðurkennda aðstöðu.  Við þekkjum mörg dæmi þess að kvenfélög og aðrir hafa fengið aðstöðu í vottuðum skólaeldhúsum og félagsheimilum í góðri aðstöðu. Við höfum höfum fengið ágæt viðbrögð frá kvenfélögum og öðrum sem hafa gert það."

Samkvæmt reglum í matvælaiðnaði verður framleiðslueldhúsið að vera vottað af heilbrigðiseftirlitinu og tiltekinnar aðstöðu er krafist. Kveðið er á um að eldhúsin séu með sérútbúinni handlaug og reksturinn sé ekki tengdur við íbúð. Hitastig þurfi að vera rétt og þrif viðunandi. Sé það ekki í lagi gæti það orsakað matvælaeitrun. Alfreð segir að matvælalöggjöfin hafi í mörg ár kveðið á um þetta en í ESB reglum sem innleiddar voru í fyrra er afdráttarlausara orðalag þar sem hnykkt er enn frekar á þessum atriðum í matvælaframleiðslu.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×