Viðskipti innlent

Ráðstefna um Ísland

Paul Krugman
Paul Krugman
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og íslensk stjórnvöld munu í sameiningu standa fyrir ráðstefnu í Hörpu 27. október næstkomandi. Rætt verður um efnahagsbatann hér á landi og þau viðfangsefni sem enn bíða úrlausnar. Ráðstefnan fer fram undir heitinu Ísland á batavegi: Lærdómar og verkefni fram undan.

Á ráðstefnunni munu koma saman íslenskir og erlendir ráðamenn, fræðimenn og fulltrúar félagasamtaka. Meðal helstu ræðumanna verða Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman og hinir kunnu alþjóðahagfræðingar Willem Buiter og Simon Johnson.

„Íslendingar hafa sýnt staðfestu og seiglu við að hrinda í framkvæmd flóknum stefnumálum við erfiðar aðstæður,“ sagði Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri AGS, í tilefni af ráðstefnunni. „Allir hlutaðeigandi geta dregið lærdóm af þessari reynslu, þar á meðal AGS.

Þess vegna er mér sérstök ánægja að sjóðurinn skuli standa að þessari ráðstefnu.“

Þá segist hún vera sannfærð um að sá hópur sérfræðinga sem munu koma saman í Reykjavík eigi eftir að hjálpa sjóðnum við að draga ályktanir sem komi stjórnvöldum víða um heim, hagfræðingum og sjóðnum sjálfum að gagni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun setja ráðstefnuna en auk hennar munu Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra halda erindi.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×