Innlent

Rækjuveiðimaður fagnar ákvörðun ráðherra

SB skrifar
Halldór Hermannsson fyrrverandi rækjuveiðimaður á Ísafirði fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar. Hann segir viðbrögð útgerðarmanna bera vott um ótta, ekkert kerfi sé óbreytanlegt og frjáls veiði á rækju muni ekki kippa fótunum undan atvinnugreininni.

„Útgerðarmennirnir sem eiga kvótann eru bara logandi hræddir - alveg eins og í skötuselsmálinu. Þeir halda að þetta sé byrjunin á því að kvótakerfinu verði breytt og verða eins og óðar hænur ef það er talað um breytingar. En það er ekkert kerfi sem er eilíft eða óbreytanlegt og ef þessi tilraun gengur ekki er lítið mál að setja kvótann á aftur," segir Halldór.

Halldór átti rækjuverksmiðju á Ísafirði í ein 20 ár og hefur mikla reynslu af rækjuveiðum. Hann segir rækjuveiði hafa snarminnkað fyrir um áratug þegar rækjan var á svo lélegu verði að veiðar á henni hættu að borga sig. Verðmæti kvótans snarminnkaði og því hafi hann frekar verið notaður sem skiptimynt fyrir annan kvóta.

„Menn þurftu jafnvel að kaupa rækjur frá Noregi og Kanada og borga af henni svokallaðan upprunatoll til að verka í verksmiðjum hérna heima. Nú þegar á að gefa þetta frjálst eru útvegsmenn óðir og uppvægir við að veiða á íslenskum miðum því þeir vilja ekkert missa og er hræddir við að ef þetta verði gefið frjálst haldi sú þróun áfram."

Halldór sem er nú sestur í helgan stein segist allt sitt líf hafa reynt að vera sanngjarn og segja sannleikann, en fyrir það hafi hann á stundum fengið bágt fyrir. Hann er ánægður með ákvörðun ráðherra og segir um að gera að sjá hvernig til tekst. „Ég hef fulla trú á að þessar veiðar eigi að vera frjálsar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×