Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist ánægð með störf sín sem ráðherra ferðamála síðustu þrjú ár. Hún blæs á gagnrýni um að hún hafi komið litlu í verk. Þetta sagði Ragnheiður í þættinum Sprengjusandi á Bylgjunni í morgun.
„Ég þreytist ekki á að segja það. Ég er mjög stolt af því að hafa náð stefnumótun til framtíðar, að klára hana í samstarfi við greinina sjálfa. Hafa náð samkomulagi milli ríkis, sveitarfélaga og greinarinnar um samstarf og samvinnu. Við erum búin að ná utan um verkefnið, eins og ég segi, og ég er stolt af því.“
Ragnheiður sagðist telja að héðan í frá yrði unnið hraðar, betur og skilvirkara að ferðamálum hér á landi. Búið væri að greina, meta og mæla.
Hún blæs á gagnrýni um að hún hafi komið litlu í verk.
„Það er einmitt þannig að ef ég hefði komið að þessu borði fyrir þremur árum með þetta sem að ég og mitt fólk erum búin að gera, þessa stefnu og þennan undirbúning, þá hefði verið hægt að ljúka fleiri málum. Ég er orðin hundþreytt á því að þessu sé haldið fram. Ég leyfi mér að segja að það lýsi vanþekkingu og skorti á því að fólk fylgist með.“
Innlent