„Hann var bara ósköp venjulegur með yfirvaraskeggið sitt,“ segir fatahönnunarneminn Guðrún Helga Kristjánsdóttir um fatahönnuðinn fræga John Galliano sem hún rakst á á tískuvikunni í París.
Vinkonurnar Guðrún Helga og Rakel Jónsdóttir eru staddar í hringiðu tískunnar á tískuvikunni í París en báðar stunda þær nám í fatahönnun hjá Listaháskóla Íslands. Nemendum gefst kostur á að fara í starfsnám í fimm vikur til Parísar og fer dvölinni senn að ljúka hjá stöllunum en báðar hafa þær verið að vinna hjá markaðssetningarfyrirtækinu Totem sem sér um markaðsmál og skipuleggur tískusýningar fyrir fatahönnuði í París.
„Stemningin er mjög skemmtileg í París núna. Hér eru tískubloggarar með myndavélar á lofti hvert sem maður lítur. Maður verður var við margar skemmtilegar týpur út um allt,“ segir Guðrún Helga og bætir við að þær hafi nú rekist á nokkur þekkt andlit úr tískuheiminum eins og Zandra Rhodes, Bernhard Vilhelm og John Galliano.
John Galliano var einmitt rekinn frá tískuhúsinu Dior í fyrra er hann gerðist sekur um að fara með niðrandi ummæli í garð gyðinga á bar í París, en það var einmitt fyrir utan þann bar sem stúlkurnar rákust á kappann. „Hann var ekki eins flottur og við héldum að hann mundi vera.Hann er samt alltaf svalur.“
Stúlkurnar eru í skýjunum með dvöl sína í París og hafa meðal annars unnið fyrir hönnuðinn Manish Arora sem hreifst af vinnu stúlknanna. „Það var mikill heiður að vinna með þessum tískufrömuði og hann bauð okkur að koma til sín í starfsþjálfun til Indlands. Hver veit nema maður skelli sér?“ - áp
Tíska og hönnun