Skoðun

Rangt og rétt um tónlistarnám

Oddný Sturludóttir skrifar

Nokkrar rangfærslur eru á lofti um framtíð tónlistarskóla í Reykjavík. Sagt er að borgin ætli ekki að niðurgreiða nám nemenda sem eru 16 ára og eldri. Það er rangt. Talað er um 50% niðurskurð og sagt að borgarstjórn ætli sér að rústa tónlistarskólum í Reykjavík og loka gamalgrónum skólum sem hafa skilað frábæru starfi. Það er líka rangt. Hið rétta er að allir flokkar í borgarstjórn eru samstíga í því að sjö ára gömlu viðræðuferli milli sveitarfélaga og Mennta- og menningarmálaráðherra ljúki svo hægt sé að eyða óvissu um tónlistarnám lengra kominna. Hið rétta er líka að til að sýna þann vilja í verki hafa allir flokkar í borgarstjórn samþykkt að setja börn og ungmenni í forgang þegar kemur að tónlistarnámi og að aldursviðmið af einhverju tagi verði sett haustið 2011. Þau eru enn óútfærð en munu taka tillit til samsetningar nemenda í tónlistarskólum, sérstöðu ákveðinna hljóðfæra og ótvíræðrar sérstöðu söngnáms.

Allir flokkar í borgarstjórn vilja móta stefnu til framtíðar og eyða óþolandi og árlegri óvissu um framtíðarskipan tónlistarnáms eldri nemenda. Við stöndum með tónlistarfólki um samfellu í tónlistarnámi og mikilvægi þess að sérstaða námsins sé virt í verkaskiptaviðræðum. Núverandi fyrirkomulag setur tónlistarnemendum úr öðrum sveitarfélögum skorður, því margir tónlistarskólar í Reykjavík eru skólar allra landsmanna og í þá sækja nemendur hvaðanæva af. Þarfir þessara nemenda eru einn aðalhvatinn að viðræðum ríkis og borgar.

Fjárhagsstaða borgarinnar er erfið. Skyldur borgarinnar eru margar. Hagræðing frá hruni í grunnskólum borgarinnar er nú orðin um 17%, hagræðing í tónlistarskólunum á sama tíma er um 25%. Á Menntasviði verðum við að forgangsraða úr sameiginlegum sjóðum þannig að leik- og grunnskólinn taki á sig minni hagræðingu en aðrir þættir. Í grunnskóla ganga öll börn, óháð atgervi, efnahag og félagslegri stöðu. Borgarstjórn hefur frá hruni lagt allt kapp á að verja velferðina, leik- og grunnskóla og aðrir þættir í starfsemi borgarinnar verða að lúta því þar til tekur að birta á ný.






Skoðun

Sjá meira


×