Innlent

Rannsókn hafin á biluninni í þotu Icelandair

Rannsóknanefnd flugslysa hefur þegar hafið rannsókn á því hvað olli bilun í vökvaknúnum stjórnbúnaði Icelandair þotu skömmu fyrir lendingu á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi, sem olli því að neyðarástandi var lýst yfir á vellinum, samkvæmt nýrri flugslysaáætlun.

Fjölmennt bjögunar- og aðstoðarlið var kallað út eða sett í viðbragðsstöðu. Meðal annars allar björgunarsveitir á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, allir tiltækir tiltækir sjúkrabílar af höfuðborgarsvæðinu voru sendir af stað, þyrluáhafnir Gæslunnar voru kallaðar út og varðskip, sem var statt suðvestur af landinu , var sett í viðbragðsstöðu.

Skömmu síðar, eða korter fyrir ellefu, lenti vélin heilu og höldnu og var hættuástandi þá aflýst. Alls voru 165 manns um borð í þotunni, sem er Boeing 757, og sakaði engan.

Teymi frá Rauðakrossinum bauð fólkinu áfallahjálp strax eftir lendingu. Ekki hafa fengist nánari upplýsingar um hvað bilaði, en vélin fer nú í nákvæma skoðun og viðgerð áður en hún verður aftur tekin í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×