Innlent

Rauði krossinn flytur af Laugaveginum

Þórgnýr Einar Albertsson og Sæunn Gísladóttir skrifa
Til stendur að breyta verslun Rauða krossins við Laugaveg 12B í hótel.
Til stendur að breyta verslun Rauða krossins við Laugaveg 12B í hótel. vísir/gva
Verslun Rauða krossins við Laugaveg 12B mun á næstunni flytja í húsnæði við Skólavörðustíg 11. Þar var Blómaverkstæði Binna áður til húsa. Áætlað er að opna nýju verslunina í febrúar.

Laugavegur 12B sem og Laugavegur 16 eru í eigu Center Hotels. Laugavegur 16 hýsir Hótel Skjaldbreið sem opnaði 1998 og nú ætlar fyrirtækið að breyta aðliggjandi húsum á Laugavegi 12B og bæta við um þrjátíu herbergjum.

„Við erum búin að vera í löngu ferli núna með byggingarfulltrúa og fleirum. Það á að gera upp húsin að hluta til, en þau eru ekki í góðu standi núna,“ segir Eva Silvernail, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Eva segir ekki vitað hvenær framkvæmdir hefjast. „Þetta er í ferli núna því húsin eru viðkvæm. Það er verið að vinna þetta í sátt við borgina þannig að það komi út fegurri bygging fyrir vikið sem væri í samræmi við götumyndina á Laugaveginum,“ segir Eva. Hún segir standa til að stækka Hótel Skjaldbreið þannig að hótelið verði rúm 60 herbergi. Verkið sé unnið í samstarfi við Minjastofnun, Minjavernd, Reykjavíkurborg og byggingarfulltrúa. „Enda lítum við svo á að miðborgin sé okkar auðlind og það sé afar mikilvægt að allar breytingar taki mið af því.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×