Innlent

Raunhæft að ljúka viðræðunum fyrir kosningar

Magnús Halldórsson skrifar
Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, segist telja að öll spilin í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins muni verða á borðinu fyrir þingkosningar á næsta ári. Það sé vel raunhæft á ljúka viðræðum á því ári sem sé til stefnu.

Stækkunarstjóri Evrópusambandsins hefur verið hér á landi undanfarna daga og fundað með ráðamönnum þjóðarinnar um ýmis álitamál er tengjast umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Hann segist sjálfur vonast til þess að aðildarviðræðurnar verði til lykta leiddar fyrir þingkosningar í maí á næsta ári, og spilin í helstu álitamálunum liggi þá á borðinu.

„Við erum ekki komin með öll spilin á borðið. Það er mikið um getgátur og ranghugmyndir um þessi mál en ég vona að þegar ferlið heldur áfram, og það er ætlun mín að fyrir þingkosningarnar verði öll spilin komin á borðið, þar á meðal erfiðustu kaflarnir og fiskveiðikaflinn er sá sem Íslendingar hafa mestan áhuga á," sagði Füle.

Hann sagðist vel hafa gert sér grein fyrir því í stuttri heimsókn að Evrópusambandið væri mikið hitamál hér á landi. Hvort skreytingar á veggjum skrifstofu Evrópusambandsins, í gömlum höfuðstöðvum Morgunblaðsins í Austurstræti, endurspegla þær að einhverju leyti, skal ósagt látið, en í það minnsta sjá menn ástæðu til þess að hafa þessa skopmynd Halldórs Baldurssonar, teiknara, sem var til marks um stirt ástand innan ríkisstjórnarinnar, m.a vegna Evrópusambandsins, innrammaða upp á vegg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×