Viðskipti innlent

Reykjanesbær selur Magma bréfið á 6,3 milljarða

Reykjanesbær hefur selt skuldabréf sem bæjarfélagið eignaðist við sölu á HS orku til Geysis Green Energy og síðar Magma Energy. Kaupandi bréfsins er Fagfjárfestasjóðurinn ORK sem rekinn er af Rekstrarfélagi Virðingar hf og er fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fagfjárfestum. Kaupverðið nemur tæpum 6,3 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þar segir að sjóðurinn hafi greitt bæjarsjóði Reykjanesbæjar um 3,5 milljarða króna í peningum og um 500 milljónir kr. í markaðsskuldabréfum en samkvæmt samkomulagi milli kaupanda og seljanda fer lokagreiðslan fram eftir 5 ár við uppgjör á skuldabréfinu.

Í framhaldi af sölu bréfsins greiðir bærinn erlent lán. Þar með hefur bæjarsjóður náð að greiða öll erlend lán bæjarins.

Fjármagnið verður jafnframt nýtt til að greiða upp skammtímalán við lánastofnanir og aðrar skammtímakröfur. Um 870 milljónir króna verða lagðar til Reykjaneshafnar.

Það voru fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hf og Centra fyrirtækjaráðgjöf sem sáu um sölu bréfsins og ráðgjöf vegna viðskiptanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×