Innlent

Ríkisendurskoðun vill að biskup víki sem formaður Kirkjuráðs

Karl Sigurbjörnsson.
Karl Sigurbjörnsson. Mynd/ Pjetur Sigurðsson
Ríkisendurskoðun vill að biskup víki sem formaður Kirkjuráðs, en það fer með framkvæmdavald í málefnum þjóðkirkjunnar og tekur ýmsar ákvarðanir er varðar fjárhag hennar og rekstur. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjóðkirkjuna og er birt í dag.

Þar fjallað um nokkra þætti í skipulagi og starfsemi þjóðkirkjunnar. Meðal þess sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir er að ekki hafi verið mörkuð heildstæð stefna um starfsemi Biskupsstofu og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr því verði bætt. M.a. þurfi að skilgreina markmið stofunnar og ákveða hvernig mæla eigi árangur hennar. Einnig þurfi að greina á milli trúarlegra málefna annars vegar og rekstrar og fjármála hins vegar í skipulagi hennar.

Því leggur Ríkisendurskoðun til að myndaðar verði tvær sjálfstæðar skipulagseiningar innan Biskupsstofu sem hvor hafi sinn yfirmann.

Svo leggur Ríkisendurskoðun til að umfangsmikil stjórnarstörf biskupsins verði takmörkuð þann tíma sem hann hefur til að sinna meginhlutverki sínu sem faglegur leiðtogi þjóðkirkjunnar. Biskup er forseti Kirkjuráðsins en að mati Ríkisendurskoðunar fer ekki vel á því. Í fyrsta lagi takmarka umfangsmikil stjórnunarstörf þann tíma sem hann hefur til að sinna meginhlutverki sínu sem faglegur leiðtogi þjóðkirkjunnar.

Í öðru lagi er hætta á að biskup þurfi innan ráðsins að úrskurða um mál sem hann hafi áður komið að á lægra stjórnsýslustigi. Ríkisendurskoðun leggur því til að lögum verði breytt og dregið úr skyldum biskups til að sinna fjármálaumsýslu kirkjunnar.

Hann sitji þó áfram í kirkjuráði og hafi þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×