Enski boltinn

Rodgers: Stórkostleg frammistaða | Ótrúleg vítaspyrnutölfræði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gareth Bale skorar seinna mark Spurs úr aukaspyrnunni umdeildu.
Gareth Bale skorar seinna mark Spurs úr aukaspyrnunni umdeildu. Nordicphotos/Getty
„Mér fannst við stórkostlegir í kvöld. Það hefði verið svekkjandi að gera jafntefli en það er ótrúlegt að við höfum tapað,“ sagði Brendan Rodgers stjóri Liverpool eftir 2-1 tapið gegn Tottenham á White Hart Lane í kvöld.

„Við lentum tveimur undir snemma leiks sem getur reynst erfitt. Leikmennirnir sýndu þó góðan anda en þetta átti ekki að ganga,“ sagði Rodgers sem sagðist svekktur fyrir hönd leikmanna sinna. Spilamennska þeirra hefði verið frábær líkt og lengst af á tímabilinu.

„Hugur minn er hjá leikmönnum mínum sem eru svekktir því þetta var leikur sem við stjórnuðum. Við áttum að fá tvær augljósar vítaspyrnu. Það er ótrúlegt að við höfum ekki fengið vítaspyrnu þegar brotið var á Gerrard og svo braut Gallas líka á Suarez innan teigs.“

„Það væri áhugavert að skoða vítaspyrnutölfræðina því ef mér skjátlast ekki höfum við ekki fengið eina einustu í deildinni.,“ sagði Rodgers ósáttur við ákvarðanir dómara leiksins, Phil Dowd. William Gallas, miðvörður Tottenham, kom við sögu í báðum atvikum. Í því fyrra virtist Frakkinn klárlega ýta á bak Steven Gerrard innan teigs en meiri óvissu gætti þegar Luis Suarez féll til jarðar eftir samskipti við Frakkann í síðari hálfleik.

Síðara mark Spurs kom eftir aukaspyrnu Gareth Bale. Rodgers var ósáttur við aukaspyrnudóminn og taldi Clint Dempsey, leikmann Spurs, hafa haft leikræna tilburði í frammi.

„Dempsey dýfði sér án nokkurrar snertingar svo allar ákvarðarnir voru okkur í mót í leiknum,“ sagði Rodgers sem þó lítur björtum augum fram á veginn.

„Það mikilvægasta er að við erum að skapa okkur færi. Heppnin hefur ekki verið með okkur. Nokkrir af reyndari leikmönnunum sögðu mér í klefanum að þeir hefðu komið hingað í tíu til ellefu ár og aldrei spilað svona vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×