Innlent

Rollu rænt og hestur sprakk

Jakob Bjarnar skrifar
Allt lék á reiðiskjálfi í Stykkishólmi um síðustu helgi.
Allt lék á reiðiskjálfi í Stykkishólmi um síðustu helgi.
Lögreglubíll stórskemmdist um síðustu helgi í Stykkishólmi þegar honum var ekið á hest. Hrossið sprakk, að sögn yfirlögregluþjónsins.

Svo virðist sem allt hafi leikið á reiðiskjálfi í Stykkishólmi um síðustu helgi; einhvers konar sturlun virðist hafa gripið um sig í þessum fallega og friðsæla bæ.

Svo mikið gekk á að lögreglubíll embættisins á Snæfellsnesi stórskemmdist þegar honum var ekið á hross og er talinn gjörónýtur. Ekki urðu slys á mönnum en hrossið sprakk, að sögn Ólafs Guðmundssonar yfirlögregluþjóns -- innyflin fóru í klessu og þurfti að aflífa það. Hrossið hljóp fyrir bílinn skammt frá afleggjaranum inn að Kvíabryggju. 

Slagsmál höfðu brotist út á Hótel Stykkishólmi og þurfti að kalla á aðstoð frá Ólafsvík, en aðeins einn lögregluþjónn var til staðar í Stykkishólmi og treysti hann sér ekki til að fara einn í að skakka leikinn.

Þá höfðu ónefndir menn tekið sig til, stolið kind í nágrenni bæjarins og voru blindfullir að flækjast með hana í bænum. Voru þeir handteknir.

Vélsmiðja var með skemmtun á hótelinu og endaði sú skemmtan með því að barþjónn var fluttur á spítala. Aðspurður segir Ólafur Guðmundsson yfirlögregluþjónn það passa: óspektarmennirnir voru aðkomumenn, enda gerist sjaldan nokkuð í Stykkishólmi í þessa átt sem í frásögur er færandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×