Rúmlega 200 ferðalangar veðurtepptir í Staðarskála
Birgir Olgeirsson skrifar
Rúmlega 200 manns eru strandaglópar í Staðarskála vegna ófærðar á Holtavörðuheiði.
Hundruð ferðalanga eru veðurtepptir í Staðarskála í Hrútafirði vegna ófærðar á Holtavörðuheiði. „Ég held að það sé bara fullt hús, ég hef aldrei séð svona marga hérna áður,“ segir Steinar Arason, starfsmaður Staðarskála, í samtali við Vísi um máli.
Rúmlega 200 manns
Einn þeirra sem er í Staðarskála er söngvarinn Kristján Jóhannsson sem bíður færis ásamt mörgum öðrum eftir því að komast yfir Holtavörðuheiðina. „Ég myndi giska á að hér væru rúmlega 200 manns saman komin í Staðarskála,“ segir Kristján.
Kristján JóhannssonVísir/Thorvaldur„Það er búið að setja grind fyrir veginn og björgunarsveitirnar eru við grindirnar og öllum bannað að fara. Fyrst var talað um að byrja að moka veginn á milli átta og níu ef vindur gengi niður í 20 metra á sekúndu. Mér skilst þó að það séu um 25 til 27 metrar á sekúndu núna og hérna úti er dýrvitlaust veður. Þannig að ætli það verði nokkuð fyrr en á miðnætti eða svoleiðis,“ segir Kristján.
Erfitt að fá gistingu
Hann segir það vel koma til greina að bresta í söng til að létta lund þeirra sem eru strandaglópar í Staðarskála. „Það getur vel verið. Allavega fyrir konuna mína í kvöld ef við verðum að gista í bílnum. Mér skilst að það sé erfitt að fá gistingu líka en ég veit að fólk er að kanna Reykjaskóla.“