Innlent

Sá örn klófesta fýl

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Spurningar hafa vaknað um hvort að hafernir hafi gert sér hreiður í Esjunni, borgarfjalli Reykvíkinga, eftir að mynd náðist af tignarlegum erni þar á flugi fyrir skömmu.

Emil Valgeirsson gekk á Kerhólakamb Esjunnar sumardaginn fyrsta og þar sem hann stóð á bjargbrún á Kambshorni kom hann auga á tvo fullvaxta haferni á flugi.

„Og þegar ég er að horfa ofan í gilin og er að mynda þá sé ég bara allt í einu örn ofan í gilinu og með eitthvað í klónum," segir Emil þegar hann lýsir reynslu sinni.

Örninn hafði klófest fýl, sem er ein aðalfæða tegundarinnar. Emil missti fljótlega sjónar á fuglinum en sýndist hann fara inn að klettunum og sá ekki betur en þar væri varp í gangi. Þetta er stórfrétt ef rétt reynist því ekki er vitað til að ernir hafi orpið á þessu svæði frá því í byrjun síðustu aldar.

Þetta hefur komið þér á óvart?

„Já, af því að ég veit ekki til þess að ernir hafi verið á Esjunni, allavega ekki sunnanmegin," svarar Emil. „Ég hef nú séð örn norðanmegin í Esjunni, hvalfjarðarmegin. Það eru nokkur ár síðan," bætir Emil við.

Náttúrufræðistofnun Íslands áætlar að fljúga um arnaslóðir fljótlega til að kanna stöðu varpsins og þá verður úr því skorið hvort að þessi tignarlega fugl sé búinn að gera sig heimakominn í borgarfjallinu góða.

„Kannski eru þeir komnir til að vera ef þeir eru búnir að verpa hérna, við skulum bara sjá til hvað verður úr þessu," segir Emil að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×