Innlent

Sakar fjármálaráðherrann um barnaskap

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir er óhress vegna svara ráðherrans. Mynd/ GVA.
Vigdís Hauksdóttir er óhress vegna svara ráðherrans. Mynd/ GVA.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sakar Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra um barnaskap í tilsvörum á Alþingi. Vigdís spurði Steingrím að því hverjir eigendur þriggja stærstu viðskiptabankanna á Íslandi væru. Svarið barst í dag, en það var eftirfarandi:





Íslandsbanki

Ríkissjóður 5%

Kröfuhafar/skilanefnd Glitnis hf. 95%

Landsbanki hf.

Ríkissjóður 81,3%

Landskil, dótturfélag Landsbanka Íslands hf. 18,7%

Arion banki hf.

Ríkissjóður 13%

Kaupskil, dótturfélag Kaupþings banka hf. 87%

„Ég var ekki að spyrja að þessu. Þetta var vitað. Við búum í samfélagi þar sem við erum með andlitslausa banka. Það var alltaf talið að þetta væru þessir svokölluðu erlendu kröfuhafar," segir Vigdís. Það sem Vigdís hafði hins vegar viljað fá upplýst er hverjir þessir kröfuhafar bankana eru. Vigdís telur að það sé skylda þingsins að fá upplýsingar um það með að á að minnsta kosti fjögurra mánaða fresti hvort eigendahópurinn í bönkunum sé eitthvað að breytast. „En þá er bara tekin þessa auðvelda og gamalkunna upplýsingalausa leið út úr þessu og þessu skellt fram eins og að um smákrakka sé að ræða sem er verið að svara," segir Vigdís. Svarið sem hafi borist frá ráðuneytinu hefði hún sjálf getað fundið út með hálfrar mínútu leit á vefnum.

„Hér er bankakerfið ennþá 50 prósent of stórt, við erum með tóman innistæðusjóð, hér á ríkið að gangast í ábyrgðir fyrir að minnsta kosti 20.887 evrur eftir bankahrun og nú er full ríkisábyrgð samkvæmt munnlegu samkomulagi," segir Vigdís. Hún spyr hvers vegna íslenska ríkið eigi að gangast í innistæðuábyrgðir fyrir erlenda kröfuhafa sem eigi allt of stórt bankakerfi á Íslandi og ekki sé vitað hverjir eru. „Og við getum ekki einu sinni heldur fylgst með því á þriggja til fjögurra mánaða fresti hvort einhverjar breytingar séu á eigendahópnum," segir Vigdís. „Það er óþolandi þar sem þingið á að vera eftirlitsskylt með ráðherrum og framkvæmdavaldinu öllu að það skuli vera svarað svona út í hött," bætir Vigdís við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×