Innlent

Samfylkingin og Björt framtíð bæta við sig fylgi

Brjánn Jónasson skrifar
Samfylkingin og Björt framtíð virðast vera að ná vopnum sínum og bæta við sig nokkru fylgi á síðustu mánuðum samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Stjórnarflokkarnir tapa fylgi og mælast samanlagt með 43,4 prósent. Þeir fengju miðað við það 28 þingmenn samanlagt, en eru í dag með 38. Yrði gengið til kosninga nú myndu stjórnarflokkarnir því missa meirihlutann, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Rúmur fimmtungur landsmanna, 20,8 prósent, styður Samfylkinguna samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Flokkurinn mældist með 14,4 prósenta stuðning í síðustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem gerð var dagana 26. og 27. júní. Kjörfylgið var enn lægra, en flokkurinn fékk 12,9 prósenta stuðning í alþingiskosningunum í vor. Flokkurinn fengi miðað við þetta 13 þingmenn, en er með níu í dag.

Björt framtíð hefur einnig bætt við sig verulegu fylgi á síðustu mánuðum, og mælist nú með stuðning 13,7 prósenta. Kjörfylgi flokksins var 8,2 prósent, og hann mældist með svipað fylgi í síðustu könnun. Yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnunina fengi Björt framtíð níu þingmenn, en er með sex í dag.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur hríðfallið frá kosningum. Hann mælist nú með stuðning 16,7 prósenta kjósenda. Fylgið mældist 21 prósent í júní, og flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum í apríl. Framsóknarflokkurinn er með 19 þingmenn í dag en fengi 11 ef kosið yrði nú, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkurinn, en í dag mælist hann með nákvæmlega jafn mikið fylgi og hann fékk í kosningunum í vor, 26,7 prósent. Í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 í lok júní mældist flokkurinn með stuðning 31,3 prósenta kjósenda, og hefur fylgið því gefið eftir á síðustu mánuðum. Flokkurinn er með 19 þingmenn í dag og fengi 17 samkvæmt könnuninni, þrátt fyrir að mælast með sama fylgi og á kjördag. Ástæðan er önnur dreifing atkvæða hjá öðrum flokkum.

Píratar bæta heldur við stuðninginn frá kosningum. Flokkurinn nýtur í dag stuðnings 7,2 prósenta landsmanna, en fékk 5,1 prósent í kosningunum. Hann mældist með litlu meira en kjörfylgi í júní. Flokkurinn myndi, miðað við þetta, bæta við sig einum þingmanni frá því sem nú er og fá fjóra menn kjörna.

Athygli vekur að fremur fáir segjast nú myndu kjósa aðra flokka en þá sem eru á þingi, þótt framboðið af öðrum flokkum hafi verið talsvert í síðustu kosningum. Aðeins 1,4 prósent segjast nú myndu kjósa annan flokk en þá flokka sem nú eiga sæti á Alþingi, en um tólf prósent kjósenda kusu einhvern annan flokk í síðustu kosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×