Innlent

Samloka og kókómjólk um helmingi dýrari í brottfarasal en í 10-11

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Um 400 króna munur er á kókómjólk og rækjusamloku þrátt fyrir að stutt sé á milli afgreiðslustaðanna.
Um 400 króna munur er á kókómjólk og rækjusamloku þrátt fyrir að stutt sé á milli afgreiðslustaðanna.
Rækjusamloka og kókómjólk eru 392 krónum dýrari í kaffiteríu IGS í brottfarasal Leifsstöðvar en í versluninni 10-11 sem er í anddyri flugstöðvarinnar.

Þetta má sjá á samanburði sem Kári Kárason, sem staddur var í Leifsstöð í morgun, gerði og birti á Facebook-síðu sinni. Kári ákvað að gera þessa einföldu verðkönnunn. Hann keypti rækjusamloku og kókómjólk í kaffiteríunni í brottafarasalnum klukkan 6:54 og keypti svo samskonar vörur í 10-11 hálftíma síðar. Munurinn var 392 krónur eða 56%.

Á strimlunum sem Kári birti á Facebook kemur fram að innifalið í verði 10-11 voru 46 krónur sem fóru í virðisaukaskatt en enginn virðisaukaskattur er greiddur af samlokunni og kókómjólkinni sem keyptar voru í brottfarasalnum, því það telst innan svæði fríhafnar.

Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri IGS segir að rekja megi verðmuninn til ýmissa þátta. „Ég veit ekki hvernig 10-11 verðleggja sínar vörur. En einn þátturinn er sá að við leigjum einnig svæði undir borð þar sem viðskiptavinir okkar geta borðað. Annar þáttur er að flæði viðskiptavina er væntanlega öðruvísi hjá okkur. Við fáum mikla umferð á stuttum tíma, á meðan það 10-11 er væntanlega með hóp viðskiptavina hjá sér allan daginn. Það gæti skýrt málið eitthvað,“ segir Gunnar.

Hann segir IGS borga nokkuð háa leigu. „Við borgum fasta leigu og svo bætist við svokölluð veltutenging: Við borgum ákveðna prósentu af veltunni til flugstöðvarinnar.“

Hér að neðan má sjá færslu frá Kára Kárasyni sem gengur nú á milli fólks á Facebook. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×