Innlent

Samtökin ´78 bjóða upp á jólamat en vona að enginn komi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Samtökin '78 bjóða nú í fyrsta sinn í kvöldverð á Aðfangadag fyrir þá sem eiga ekki í nein hús að venda um hátíðarnar.
Samtökin '78 bjóða nú í fyrsta sinn í kvöldverð á Aðfangadag fyrir þá sem eiga ekki í nein hús að venda um hátíðarnar. Myndvinnsla/Garðar
Samtökin ‘78 bjóða nú í fyrsta sinn í kvöldverð á Aðfangadag fyrir þá sem eiga ekki í nein hús að venda um hátíðarnar. Þau vonast þó til að sjá sem fæsta og segja að draumurinn sé að allir eigi samastað um hátíðarnar.

„Það getur alltaf komið upp sú staða hjá fólki að það eigi ekki í nein hús að venda um hátíðarnar,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, formaður samtakanna, í samtali við Vísi. Hún segir það geta verið af ýmsum ástæðum.

„Til dæmis eru ýmsir einstaklingar sem leita til okkar sem eru hælisleitendur og hafa þess vegna ekki ríkt stuðningsnet og vilja gjarnan komast í umhverfi þar sem þeir geta notið samvista við fólk og haft frelsi til að vera þau sjálf yfir hátíðarnar. Svo eru einnig einstaklingar sem vilja bara vera í umhverfi þar sem hægt er að upplifa ákveðið öryggi og líða vel yfir jólin. Það eru ekki allir sem ganga að því vísu heima hjá sér, það getur verið allur gangur á því.“

Vonar að enginn komi

Guðmunda Smári Veigarsdóttir, meðstjórnandi samtakanna, hefur umsjón með verkefninu og mun taka á móti gestum á Aðfangadagskvöld.

„Ég vona að það komi enginn, en það hafa nokkrir sýnt þessu áhuga. Við verðum líklega fimm til tíu, eftir því hvort fólk kemur inn af götunni,“ segir Guðmunda í samtali við Vísi.

„Það væri draumurinn að allir hafi stað til að vera á með fjölskyldu eða vinum en það er ekki alltaf staðreyndin.“

Guðmunda segir að fólk hafi ýmsar ástæður til að leita til samtakanna yfir jólin, allt frá því að fjölskylduaðstæður geri það að verkum að börn eyði jólunum annars staðar til þess að trans einstaklingar upplifi sig ekki velkomna hjá fjölskyldu sinni.

„Ég held þetta sé algengara en flestir geri sér grein fyrir, en ég vona að það sé ekkert bráðalgengt. En já, ég veit um slatta af einstaklingum sem fara ekki til fjölskyldunnar sinnar vegna þess að þeim líður ekki vel þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×