Erlent

Samviskuföngum fækkar í Norður-Kóreu

STefán Ó. Jónsson skrifar
Loftmynd af tveimur af stærstu fangabúðum Norður-Kóreu.
Loftmynd af tveimur af stærstu fangabúðum Norður-Kóreu. Visir/AFP
Uppi eru getgátur um að yfirvöld í Norður-Kóreu hafi fækkað samviskuföngum í landinu og lokað einum af fangabúðum landsins er fram kemur í niðurstöðum rannsóknar Sameiningarstofnunnar Kóreu (KINU).

Samkvæmt  niðurstöðum hennar er áætlað að á bilinu 80 til 120 þúsund samviskufangar sé nú í landinu í alls fimm fangabúðum en áætlunin er byggð á viðtölum við fjölda flóttamanna frá Norður-Kóreu og gervihnattamyndum af landinu.

Suður-Kóresk yfirvöld sýndu fram á í svipuðum rannsóknum árið 2009 að fjöldi fanga í fangabúðum Norður-Kóreu væri þá á bilinu 150 til 200 þúsund en fækkunin er rakin til fyrrnefndar lokunar á búðunum í Hoeryong og hárrar dánartíðni meðal samviskufanga.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru ekki talin hafa breytt stefnu sinni í þessum málaflokki og skiptar skoðanir eru um áreiðanleika niðurstaðna KINU en bæði bandarísk yfirvöld og mannréttindasamtökin Amnesty International telja fjölda samviskufanga vera ívið meiri en KINU áætlar.

Amnesty sagði þvert á móti í desember síðastliðnum að fjöldi þeirra væri að aukast eftir að greining á gervihnattamyndum sýndi fram á fjölda nýrra íbúðarbragga í grennd við eina af stærri fangabúðum landsins.

Sameiningarstofnunn árétti að nákvæmur fjöldi samviskufanga í Norður-Kóreu skipti þó minna máli en sú staðreynd að þessar fangabúðir væru enn við lýði en búðirnar eru einna helst ætlaðar þeim sem taldir eru óhliðhollir stjórnvöldum í Pyongyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×