Innlent

Sannað að Eiríkur rauði gat bruggað öl á Grænlandi

Bústaður Eiríks rauða á Grænlandi.
Bústaður Eiríks rauða á Grænlandi.
Fornleifafræðingum frá danska þjóðminjasafninu hefur loksins tekist að sanna að Eiríkur rauði og hans fólk gat bruggað öl á Grænlandi á sinni tíð.

Það hafa lengi verið vangaveltur um hvort loftslagið á syðsta hluta Grænalands hafi verið nægilega hlýtt á tímum víkinganna til þess að hægt væri að rækta þar korn og þar með brugga öl, eða mjöð, sem var einn helsti drykkur víkinga, elda graut og baka brauð.

Nú hafa danskir fornleifafræðingar fundið leifar af brenndu byggi í fjóshaug sem er frá þeim tíma þegar Eiríkur rauði og fleiri Íslendingar fluttu sig búferlum til Grænlands. Þetta er í fyrsta sinn sem ummerki um kornrækt finnast á syðsta hluta Grænlands fyrir um 1.000 árum síðan.

Í umfjöllun Jyllandsposten um málið kemur greinilega fram að dönsku fornleifafræðingarnir eru mjög stoltir af þessum fundi sínum. Ætlunin er að flytja um 300 kíló af fjóshaugnum til Danmerkur til frekari rannsókna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×