Skoðun

Sannleikurinn um fjármögnun heilbrigðisþjónustu á Íslandi

Ólafur Ólafsson og Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Allt frá árinu 2003 hefur hlutfall heilbrigðisþjónustu af vergri landsframleiðslu (VLF) farið lækkandi. Árið 2003 var það 10,1% en hefur hægt og bítandi lækkað niður í 8,8% árið 2014. Fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar hefur því ekki hækkað líkt og heyrst hefur frá stjórnarherrunum. Upplýsingar frá Landlækni og Kára Stefánssyni eru því réttar. Ísland leggur ekki jafnmikið til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF eins og hin norrænu ríkin. Árið 2014 var hlutfall heilbrigðisútgjalda af VLF í Svíþjóð 11%, Danmörku 10,4%, 9,4% í Noregi og 8,7% í Finnlandi. Sömu sögu má segja ef tekið er mið af kaupmáttarjafnvægi mælt í dollurum[1]

Gæði og árangur heilbrigðisþjónustu á Íslandi virðist vera góð í alþjóðlegum samanburði þangað til árin 2009–2010. Eftir 2009 höfum við ekki náð að halda þeim gæðum og árangri í heilbrigðisþjónustu sem við teljum viðunandi og vera í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.

Vegna lélegrar endurnýjunar á nauðsynlegum tækjum og búnaði ásamt skorti á læknum, hjúkrunarfræðingum og tæknifólki hafa biðlistar lengst. Nú um mundir hafa skapast óþolandi biðlistar jafnvel eftir einföldum augnaðgerðum, meðferð á hjartaóreglu, hjartaþræðingum og bráðnauðsynlegum krabbameinsrannsóknum og eftirliti. Að auki hefur skapast ógnvekjandi kostnaður hjá mörgum sjúklingum vegna notkunar á heilbrigðisþjónustu vegna sinnuleysis heilbrigðisyfirvalda. Á þetta sérstaklega við fólk sem glímir við krabbamein og langveikt fólk. Kannanir hafa sýnt að fleiri og fleiri hafa frestað ferð til læknis vegna kostnaðar. Þar fyrir utan hefur dregið stórlega úr innleiðingu á nýjum lyfjum. Ef þessi þróun heldur áfram og ekki meira fjármagni varið í heilbrigðisþjónustuna, bendir flest til þess að gæði og árangur hennar muni versna á næstu árum.

Það þarf að forgangsraða betur og leggja meira fé í heilbrigðisþjónustuna. Ef meira fé fæst í heilbrigðismál á að nota það til að auka gæði og árangur heilbrigðisþjónustunnar og draga úr kostnaðarþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Við teljum það verðugt markmið að taka áskorun Kára Stefánssonar og stefna að því að 11% af vergri landsframleiðslu fari í heilbrigðismál, til að viðhalda þeim góðu gæðum og árangri sem við þegar höfðum náð.

[1] Purchasing Power Parity – P.P.P OECD skýrslur París og skýrslur WHO 2005-2014




Skoðun

Sjá meira


×