Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Gjaldeyrishöftin verða mögulega framlengd

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Seðlabankastjóri segir að það gæti orðið hluti af nýrri áætlun um gjaldeyrishöftin sem kynnt verður fyrir mars næstkomandi að leggja til að höftin verði framlengd, en samkvæmt gildandi lögum rennur heimildin til þeirra út í ágúst 2011.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var aðalræðumaður á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun. Már sagði að seðlabankavextir væru í sögulegu lágmarki og þeir hefðu ekki verið lægri í 50 ára sögu bankans. Peningastefnunefnd teldi engu að síður að svigrúm væri enn til staðar til frekari lækkunar seðlabankavaxta að því gefnu að gengi krónunnar héldist stöðugt og verðbjólgan hjaðnaði eins og spáð væri.

Már vék að þeirri yfirlýsingu sem var gefin gjaldeyrishöftin þegar vaxtákvörðun Seðlabankans var kynnt á miðvikudaginn, en Kjarni hennar var sá að engin almenn skref yrðu tekin til að lyfta höftunum fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári og áður yrði endurskoðuð áætlun um afnám haftanna kynnt til sögunnar.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sagði í ávarpí sínu að skilaboð Seðlabankans sjálfs um framtíð gjaldeyrishaftanna hefðu verið misvísandi. Yfirlýsingar bankans hefðu m.a. verið túlkaðar þannig að afnám hafta væri á næsta leyti en í þessari viku hefði verið slegið á þær væntingar.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, spurði seðlabankastjóra um þetta atriði og vildi fá að vita hvort hann gæti ekki verið nákvæmari varðandi tímaplan um afnám haftanna.

Már sagði að ástæðan fyrir því að hann geti ekki verið nákvæmari sé sú að höftin byggi á lagagrunni frá Alþingi. Samkvæmt þeim lögum renni heimildin út í ágúst á næsta ári.

Már segir hinsvegar að meiningin sé að koma með nýja áætlun áður en mars rennur upp og þá gæti það orið hluti af þeirri áætlun að kynna til leiks hugmyndir um að framlengja gjaldeyrishöftin. Hann bendir þó á að lokaákvörðunin sé í höndum Alþingis.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×