Viðskipti innlent

Seðlabankinn reynir að létta á erfiðri stöðu Landsbankans

Samningur Seðlabankans um framvirka sölu á gjaldeyri upp á sex milljarða króna í vikunni var gerður til þess að reyna að létta á erfiðri stöðu Landsbankans

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að skuldabréfið sem gefið var út á milli gamla og nýja Landsbankans teljist til gjaldeyrisskulda þjóðarbúsins frá áramótum og það hafi skekkt verulega gjaldeyrisjöfnuð Landsbankans.

Enn er ekki ljóst hversu há fjárhæð þessa skuldabréfs verður í krónum talið en hún verður öðru hvoru megin við 250 milljarða króna. Lauslega má áætla að gjaldeyrisjöfnuður Landsbankans sé nú neikvæður sem nemur 40 til 50 milljörðum króna vegna skuldabréfsins. Þetta er sú upphæð í gjaldeyri sem Landsbankinn þarf að útvega sér á næstunni til að rétta af bókhald sitt.

Í Morgunkorninu segir að gjaldeyrisójöfnuður Landsbankans í augnablikinu gæti því numið á bilinu 20-25% af eigin fé hans. Reglur Seðlabankans kveða hinsvegar á um að gjaldeyrisjöfnuðurinn eigi ekki að víkja frá jafnvægi um meira en 15% af eigin fé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×